1.12.2021

Birgir Ármannsson kjörinn forseti Alþingis

Birgir Ármannsson var í dag, 1. desember 2021, kjörinn forseti Alþingis með 48 atkvæðum. Á sama fundi var ný forsætisnefnd kjörin.

Nýkjörinn forseti Alþingi þakkaði alþingismönnum traustið og sagðist myndu leggja sig allan fram í störfum sínum við að standa undir því trausti og vinna sem best að því í samstarfi við aðra alþingismenn að sinna þeim störfum sem þjóðin hefði falið þeim. Jafnframt kvaðst hann vænta góðs samstarfs við starfsfólk Alþingis. „Rúmar níu vikur eru liðnar frá kosningum og þær óvenjulegu aðstæður eru uppi að þingsetningarfundur hefur staðið núna í rúma viku, en slíkar kringumstæður hafa ekki verið uppi síðan um miðja síðustu öld. Ærin störf bíða okkar þingmanna, mál sem þarf að ljúka fyrir árslok. Þar ber auðvitað hæst fjárlagafrumvarp og tengd mál. Ég vonast eftir nánu og góðu samstarfi við formenn þingflokka og formenn stjórnmálaflokkanna um skipulag þingstarfanna á þeim skamma tíma sem eftir lifir af haustþinginu,“ sagði forseti í ávarpi sínu. Loks óskaði hann þingheimi og þjóð til hamingju með fullveldisdaginn og bauð alla alþingismenn velkomna til starfa á 152. löggjafarþingi. Sérstaklega óskaði hann þeim alþingismönnum sem taka nú sæti á Alþingi í fyrsta sinn heilla í þeirra störfum. Einnig óskaði hann þeim sem valist hafa til að gegna ráðherraembættum allra heilla og kvaðst vona að samstarf ríkisstjórnar og Alþingis yrði farsælt.

Birgir Ármannsson hefur setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðan 2003, fyrst sem alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður 2003–2013 og síðan Reykjavíkurkjördæmis norður síðan 2013. Hann var 6. varaforseti Alþingis 2003–2005, 3. varaforseti 2005–2007 og 2. varaforseti 2016–2017. Þá var hann formaður þingflokks sjálfstæðismanna 2017–2021. Áður en Birgir náði kjöri á Alþingi starfaði hann hjá Verslunarráði Íslands, síðustu árin sem aðstoðarframkvæmdastjóri. Birgir hefur setið í allsherjarnefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, kjörbréfanefnd, sérnefnd um stjórnarskrármál, viðskiptanefnd, umhverfisnefnd, saksóknarnefnd, þingskapanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, utanríkismálanefnd, velferðarnefnd, allsherjar- og menntamálanefnd. Þá hefur hann setið í Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins, Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins, Íslandsdeild VES-þingsins, Íslandsdeild NATO-þingsins og Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins. Birgir er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands.